Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 714. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1264  —  714. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarna Lárusson frá ríkisskattstjóra, Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bryndísi Skúladóttur fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, Hörð Davíð Harðarson frá embætti tollstjórans í Reykjavík, Kristínu Lindu Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti og Guðlaug Sverrisson frá Úrvinnslusjóði.
    Lagt er til í frumvarpinu að það verði hlutverk Úrvinnslusjóðs en ekki sveitarfélaga að ná tölulegum markmiðum um hlutfall pappa-, pappír og plastumbúðaúrgangs sem skal fara í endurnýtingu og endurvinnslu. Í 5. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs, nr. 737/2003, eru ákvæði þar sem kveðið er á um markmið um úrvinnslu lífræns úrgangs, umbúðaúrgangs, úr sér genginna ökutækja og raf- og rafeindaúrgangs.
    Þá eru lagðar til breytingar vegna margnota flutnings- og safnumbúða. Einnig er lagt til að ábyrgð á greiðslu úrvinnslugjalds færist frá innflytjendum og framleiðendum til kaupanda. Auk þess er lagt til að skattstjóra sé heimilt að gefa út svokallað úrvinnslugjaldsskírteini en því svipar til vörugjaldsskírteinis og er ætlað að liðka fyrir innheimtu og álagningu gjaldsins. Þá eru gerðar lagfæringar á lögunum sem lúta að tilvísunum í ný tollalög, nr. 88/2005.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Nefndin leggur til breytingar á 1. gr. og 1. efnismgr. a-liðar 3. gr. frumvarpsins með því að skjóta inn tilvísunum í önnur ákvæði laganna til nánari skýringar. Þá er lögð til breyting á 1. málsl. 2. efnismgr. e-liðar með því að skipta orðinu „reikningur“ út fyrir orðið „sölureikningur“. Einnig er lögð til breyting á 3. efnismgr. e-liðar 3. gr. í því skyni að heimilt verði að gefa út úrvinnslugjaldsskírteini til framleiðanda, innflytjanda og seljanda umbúða úr pappa, pappír eða plasti en í frumvarpinu er einungis gert ráð fyrir að innflytjendur umbúða geti fengið slíkt skírteini. Að lokum skal getið breytingar á 9. gr. frumvarpsins en hún lýtur að tilvísunum í ákvæði. Breyting nefndarinnar lýtur að því að vísa í ákvæði frumvarpsins en ekki laganna eins og þau verða verði frumvarpið að lögum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Atli Gíslason og Ásta Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 2006.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.



Mörður Árnason.


Kjartan Ólafsson.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.